Archive Page 4

„Það eru mistök að kaupa ekki blómin“

Ég fór út í búð í morgun. Horfði lengi á brauðið dýra og tók síðan það ódýrasta úr hillunni. Þá ost og smjör, og svo stóð ég við kassann og beið. Tveir á undan mér og ein kona fyrir aftan mig í röðinni. Við hliðina á mér var standur með fötum sem geymdu blómvendi. Ég tók einn vönd úr fötunni og dáðist að honum um leið og ég skimaði eftir verðinu. Hætti við og setti blómvöndinn aftur í fötuna. Þá heyrðist í konunni fyrir aftan mig: „Það eru mistök að kaupa ekki blómin. Treystu mér.“ Ég þakkaði henni fyrir, borgaði blómvöndinn og matinn og gekk áleiðis heim.

Ég var kominn nokkur hundruð metra frá búðinni þegar strákurinn á kassanum kom hlaupandi upp að mér og sagði brosandi: „Þú gleymdir ostinum.“

Mér finnst gott fólk búa á Íslandi. Það á miklu betra skilið, og það getur gert miklu betur, en þeir duglausu og dáðlausu stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar sem hér hafa náð að einoka völdin. Landi og lýð til bölvunar.

Þegar ég kom heim, gaf ég Guðnýju minni blómvöndinn. Konan fyrir aftan mig í röðinni hafði rétt fyrir sér.

Gleðilegt sumar 🙂

Facebook

Athugið! (vegna skýrslu rannsóknarnefndar)

 • Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er upphaf. Ekki endir.
 • Margir vilja eyðileggja trúverðugleika skýrslunnar. Meintir andstæðingar munu verða samstiga í því og beita öllum brögðum.
 • Stjórnvöldum er í lófa lagið að ná til allra helstu gerenda í efnahagshruninu, annarra en stjórnmálamanna, með því að höfða gegn þeim skaðabótamál. Stjórnvöldum ber að gera það. Almenningi ber að krefjast þess einum rómi. Skýrslan gerir kleift að ná til stjórnmálamanna eftir öðrum leiðum.
 • Halda þarf opinberar vitnaleiðslur um einstaka þætti sem í skýrslunni eru taldir eiga stærstan þátt efnahagshruninu, það er yfir þeim sem ekki verða ákærðir og eiga fyrir höndum opinber réttarhöld.
 • Einkavæðingu bankanna mætti ef til vill rannsaka sem auðgunarbrot.
 • Brot á lögum um ráðherraábyrgð fyrnast á þremur árum. Mikið veltur á hve skýrt skýrslan kveður á um ábyrgð einstakra ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Alþingi (níumannanefndin) er ekki einfært um að ákveða hvort og þá hvaða ráðherrar skuli dregnir fyrir Landsdóm. Vanhæfi kemur ekki til álita en fullkomlega ótrúverðugt er, við ríkjandi ástand, að þingmenn haldi einir á málinu. Við ákvörðun um ákæru þarf Alþingi að styðjast við opinberar álitsgerðir sérfræðinga sem njóta trausts almennings.
 • Búast má við lista í skýrslunni yfir mál sem rannsóknarnefndin vísar til sérstaks saksóknara. Nefndinni ber að vísa málum til sérstaks saksóknara, ef grunur er um lögbrot. Nefndin kaus að vísa öllum málum á einu bretti til sérstaks saksóknara við útgáfu skýrslunnar, í stað þess að gera það jafnóðum. Gera má ráð fyrir að bálkurinn verði langur og þar verði að finna fjárglæframenn í bland við embættismenn. Jafnvel fyrrverandi þingmenn og ráðherra.
 • Þingmenn þarf að svipta þinghelgi til að þeir verði ákærðir.
 • Þótt íslenskum stjórnmálaflokkum hafi farist flest illa úr hendi, þá er þeim lagið að tvístra fólki sjálfum sér til hagsbóta. Það heitir að deila og drottna. Að því munu þeir vinna sameiginlega, nú sem endranær.
 • Landsmenn þurfa að koma vitinu fyrir íslenska stjórnmála- og valdastétt, þannig að hún horfist í augu við siðferðilegt og pólitískt gjaldþrot sitt og axli ábyrgð á gjörðum sínum.
 • Almenningur þarf taka málin í eigin hendur og leggja nýjan grunn að samfélagi sínu. Líta í eigin barm og semja sér eigin stjórnarskrá, án beinna afskipta stjórnmálastéttar sem réttilega er rúin öllu trausti.

Facebook

Reglubræður

Magni Guðmundsson vildi einskis manns þý vera og var gæddur ýmsum öðrum eiginleikum sem sjaldgæfir eru á Íslandi. Hann flutti þarfa pistla í útvarpið á sinni tíð. Þessi tímabæru orð munu vera úr einum slíkum frá árinu 1968:

„Alþingismenn, sem hafa öðlast fasta ábúð á þingi, munu að sínu leyti minna hirða um þjóðarviljann. Þeir vita, að á hverju sem veltur, verða þeir kosnir á þing á ný samkvæmt lista, – að því tilskyldu auðvitað, að þeir sýni miðstjórn fylgispekt. Siglir í kjölfarið dvínandi áhugi á sjálfum þingstörfunum, enda gerist æ tíðara, að mál séu fengin sérfræðingum í hendur til afgreiðslu utan þingsala. Innbyrðis deila þingmenn helst um það, hverjir komist hverju sinni í stjórnarsamstarfið.

Þegar sömu menn úr andstöðuflokkunum sitja saman á þingbekkjum um langt skeið, bindast þeir með tímanum félagsböndum og verða eins konar reglubræður. Flokkalínur ruglast smátt og smátt, en sameiginleg og þá oft persónuleg hagsmunamál fá yfirhöndina (þó að einhverju pólitísku ryki sé til málamynda þyrlað upp fyrir kosningar). Með þessum hætti getur myndast hópur ráðamanna úr öllum flokkum, er æ standa saman. […] Að því rekur þá, að þeir verði ásamt nánasta umhverfi að sérstakri stétt, sem þjóðin fer að líta hornauga. Niðurstaðan er, að núverandi kosningakerfi og skipan mála er ekki lengur viðunandi fyrir hið háa Alþingi. Þörf er gagngerðrar endurskoðunar, og byggja verður á nýjum grunni.“

Ríkisútvarpið 1968
Magni Guðmundsson hagfræðingur

Kerfið sem dr. Magni lýsti keyrði íslenskt samfélag í þrot. Eigum við ekki að fara að ráðum hans?

Facebook

Vítavert og áunnið „sakleysi“

„Það er raunar ánægjulegt eins og þingmenn þekkja að alþjóðlegar kannanir, t.d. síðastliðin sex ár, hafa allar verið einróma um að spilling í stjórnmálalífi og innan stjórnkerfisins þrífist ekki á Íslandi.“

Formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, í umræðum á Alþingi í desember 2006 um fjármál stjórnmálaflokka.

„Að mínu mati er einn megintilgangur þessa frumvarps að fyrirbyggja tortryggni, bæta andrúmsloftið í samskiptum stjórnmálaheimsins og þjóðarinnar þannig að ekki þurfi að vera neikvæð umræða og tortryggni, að mestu vonandi eða jafnvel að öllu leyti tilefnislaus, um að fjármálalegt afl geti haft óæskileg áhrif á stjórnmálin á bak við tjöldin.“

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vg, við sömu umræður.

Sjá umræður á eftirfarandi slóð: http://www.althingi.is/skodalid.php?lthing=133&lidur=lid20061208T154319

Facebook

Vaknið! Steingrímur og Jóhanna

Efasemdir meðal almennings um að Ísland sé réttarríki eru stórhættulegar samfélaginu.

Ykkur, ríkisstjórninni sem þið farið fyrir, ber að leggja til við Alþingi að sett verði almenn lög um eignarhald á fyrirtækjum sem fá afskrifaðar milljarðaskuldir vegna efnahagshrunsins. Gera þarf almennar kröfur til eigenda þannig að þeir geti ekki aukið hlut sinn í fyrirtækjum sem fá afskrifaðar slíkar skuldaupphæðir, né heldur sæti þeir sakarannsókn vegna hrunsins.

Að draga slíka lagasetningu lengur en orðið er jaðrar við vanrækslu. Hættið að skýla ykkur á bakvið bankana. Hættið að spila upp í hendurnar á Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Hrunflokkunum. Gerið það sem almenningur ætlast til af ykkur.  Vaknið!

Hafið hugfast:

Ekki er hægt að keyra lýðræðisríki jafnherfilega í þrot og gert var á Íslandi nema með stjórnarandstöðu sem bregst hlutverki sínu. Við hrunið hefði öll hin íslenska stjórnmálastétt átt að biðja þjóðina afsökunar og víkja til hliðar fyrir utanþingsstjórn, neyðarstjórn. Það varð því miður ekki, en þeim mun ríkari er skylda ykkar nú.

Gylfi ætti að hugleiða ásamt fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, að setja almenn lög og reglur um eignarhald á fyrirtækjum sem fá afskrifaðar skuldir. Gera þarf almennar kröfur til eigenda um að þeir geti ekki aukið hlut sinn í fyrirtækjum sem fá afskrifaðar skuldir, né heldur sæti þeir sakarannsókn vegna hrunsins.

Facebook

Leki úr rannsóknarskýrslu – Draumalandið

Samfélagið mótast af hugmyndum manna, til góðs eða ills. Frétt sem birtist í breska blaðinu Financial Times þann 7. apríl 1998 er meðal gagna sem rannsóknarnefnd Alþingis styðst við til að leiða fram ástæður efnahagshrunsins á Íslandi. Fréttin er skrifuð af Tim Burt, en þar lýsir þáverandi forsætisráðherra Íslands draumsýn sinni um landið okkar.

Fyrirsögn fréttarinnar ýkir ekki innihaldið:

„Iceland warms to offshore banking: PM wants country to emulate Luxembourg and Switzerland“

„David Oddsson has a grand plan for Iceland. If the prime minister of Europe’s most sparsely populated country gets his way, the volcanic North Atlantic island would become a centre for offshore banking.

Mr Oddsson – facing re-election next year – has ordered a study into how the country could emulate Luxembourg and Switzerland as a „safe haven“ for depositors who value secrecy.“

Ennfremur segir í fréttinni:

„The prime minister claims the proposal has serious merit. „Switzerland has shown the benefits of having such a banking system,“ he says. And he predicts that Iceland could be the unlikely beneficiary of European Union attempts to harmonise banking regulations in Luxembourg.

Transforming Reykjavik into a financial centre may take some time, given that the country boasts only four commercial banks. But for the government it represents one of more ambitious attempts to diversify an economy that, for centuries, has drawn its income from the sea. „Icelandic politicians have been talking for 30 years about making the economy more flexible. But when you look at what has been achieved, almost nothing has succeeded,“ according to Mr Oddsson.“

Ekki þvældist lítillætið fyrir forsætisráðherranum. Engu að síður dró Mr Oddsson í land tveimur dögum síðar í frétt sem birtist í Morgunblaðinu, en bara örlítið: Hann sagði rangt að tala um beinar áætlanir. „“Kostir þess að setja upp fjármálamiðstöð hér voru hins vegar kannaðir á sínum tíma og blaðamanninum var sagt frá því,“ sagði Davíð.“

Samt var augljóst að hverju var stefnt. Stjórnarfrumvarp um „Offshore Trading Center“ var lagt fram strax í janúar árið eftir, það er 1999.

Íslenskur hagfræðingur lét skjalaþýðanda snara athugasemd forsætisráðherrans úr Morgunblaðinu yfir á ensku og sendi Financial Times. Höfundur fréttarinnar, Tim Burt, hafði í framhaldi af því samband við hagfræðinginn, og var ósáttur. Hann sagði eitthvað á þá leið að forsætisráðherra Íslands segði sig ljúga, og hann vissi svo sem ekki hvað hann ætti að gera með það. Hins vegar vildi blaðamaðurinn vita hvað hagfræðingnum fyndist um innihald fréttarinnar, það er hverju hann teldi að forsætisráðherrann væri að lýsa. Síðan las hann upp úr frétt sinni í Financial Times og innti hagfræðinginn enn álits. Sá sagði að lýsing forsætisráðherra gæti átt við um peningaþvætti. Tim Burt sagði að sér hefði raunar fundist það líka, þótt hann hefði ekki notað það orð í fréttinni.

Hugmyndir þessar er nætækt skoða í ljósi samskonar oflætis- og dellu-hugmynda sem síðar voru settar á blað, eins og þeirrar að gera Ísland að ríkasta landi í heimi. Í bók Hannesar H. Gissurarsonar frá árinu 2001 er einmitt fjallað um það þjóðráð. Í vinsamlegum dómi um bókina sagði:

„Næstsíðustu tveimur köflum bókarinnar er varið til þess að skoða annars vegar fordæmi Lúxemborgar og Írlands og hins vegar sjö lítilla eylanda, en öll hafa þau tekið sér fram um að opna fyrir erlent fjármagn og fyrirtæki og stofna til fjárhælis fyrir eigendur hvaðanæva að úr heiminum. Slík fjárhæli hafa verið fjáreigendum til margra hluta nytsamleg: til að firra þá opinberum afskiptum og tryggja hámarks arðsemi, komast hjá skattbyrði heimalands og jafnvel til að koma illa fengnu fé undan armi laganna.“

Martraðarkenndar verða þessar hugmyndirnar síðan þegar þær eru skoðaðar í ljósi einkavæðingar bankanna, fullyrðinga um mafíutengsl íslenskra bankaeigenda og orðróms um peningaþvætti.

——————-

Fréttin úr Financial Times: http://proquest.umi.com/pqdweb?did=28448890&sid=1&Fmt=3&clientId=58032&RQT=309&VName=PQD

Frétt í mbl. um fréttina í FT: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=393289

Stjórnarfrumvarp um Offshore Trading Center: http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=123&mnr=414

Welt Am Sonntag um meint mafíutengsl stærsta eiganda Landsbanka Íslands: http://www.novinite.com/view_news.php?id=57609

Beresovskí um peningaþvætti: http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/2009/02/12/segir_russa_hafa_keypt_island/

Sjá einnig stórmerkilegt viðtal við William K Black í Silfri Egils: http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/video/7930

Facebook

Svona á að kjósa, segir Rousseau

Í dag munu ákvæði 26. greinar Stjórnarskrár Íslands í fyrsta sinn – og líklega síðasta – ná fram að ganga. Sögulegar rætur greinarinnar má að minnsta kosti rekja til Rousseaus og frönsku byltingarinnar. Rousseau hélt því fram að löggjafarvaldið tilheyrði almenningi og engum öðrum og allar aðgerðir framkvæmdavaldsins væru, eða ættu að vera, lög. Þessar staðhæfingar hvíla á þeirri forsendu Rousseaus að fullveldið verði hvorki framselt né því skipt upp og að fullveldið sé aðeins framkvæmd almannaviljans. Hann gaf ekkert fyrir það sem við nefnum fulltrúalýðræði.

Almannavilji Rousseaus er ekki það sem hver og einn vill útaf fyrir sig. Almannavilji tekur mið af sameiginlegum hagsmunum en vilji hvers einstaklings tekur mið af einkahagsmunum.

Flokkadrættir og sérhagsmunir spilla fyrir því að almannaviljinn nái fram að ganga. „Til þess að tjáning almannaviljans komist vel til skila er því mikilvægt að ekki sé til sérstakt samfélag innan ríkisins og að sérhver borgari taki ákvarðanir eftir sannfæringu sinni.“ Kenning heimspekingsins John Rawls um réttlæti á sér skíra samsvörun í þessari hugmynd Rousseaus, þar sem hver einstaklingur tekur afstöðu án þess að vita nokkuð um hverjir einkahagsmunir hans séu. Þannig myndu svonefndir kvótagreifar t.d. greiða atkvæði um kvótakerfið án þess að hafa hugmynd um að þeir ættu kvóta. Rawls talar um að greiða atkvæði bakvið tjald fávísi (e. veil of ignorance).

Í dag eigum við að hefja okkur upp yfir litla, eigingjarna og hégómlega egóið og vera borgarar í samfélagi sem við öll berum ábyrgð á.  Við eigum að kjósa. Ekki út frá því hvort það komi Ólafi Ragnari eða Steingrími eða Jóhönnu eða Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum vel eða illa, heldur því sem við teljum í einlægni að komi samfélagi okkar vel. Sjálfum okkur og eftirkomendum.

Facebook%d bloggurum líkar þetta: