Archive Page 2

Málshöfðun gegn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur – Kæruatriði

B. Málið er höfðað á hendur Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, fyrir brot framin á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, aðallega fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, til vara fyrir brot gegn 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en til þrautavara fyrir brot gegn 141. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga.
I.
 • Fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem utanríkisráðherra og oddviti Samfylkingarinnar í ríkisstjórn andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem henni var eða mátti vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir eða gera tillögur til annarra ráðherra um aðgerðir, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins.
 • Fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.
 • Fyrir að hafa vanrækt að beita sér fyrir virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.
 • Fyrir að hafa ekki fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave- reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.

Framangreind háttsemi þykir varða við b-lið 10. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en til þrautavara við 141. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga.

  II.
  • Fyrir að hafa á framangreindu tímabili látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Á þessu tímabili var lítið fjallað á ráðherrafundum um hinn yfirvofandi háska, ekki var fjallað formlega um hann á ráðherrafundum og ekkert skráð um þau efni á fundunum. Var þó sérstök ástæða til þess, einkum eftir fund hennar, Geirs H. Haarde, Árna M. Mathiesen og formanns stjórnar Seðlabankans 7. febrúar 2008, eftir fund hennar og Geirs H. Haarde með bankastjórn Seðlabankans 1. apríl 2008 og í kjölfar yfirlýsingar til sænsku, dönsku og norsku seðlabankanna sem undirrituð var 15. maí 2008. Utanríkisráðherra átti ekki frumkvæði að formlegum ráðherrafundi um ástandið né heldur gaf hún ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á íslenska ríkið.
  Þykir þetta varða við c-lið 8. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga.

  Facebook

  Málshöfðun gegn Geir H. Haarde – Kæruatriði

  A. Málið er höfðað á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir brot framin á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, aðallega fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, en til vara fyrir brot gegn 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
  I.
  • Fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem honum var eða mátti vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins.
  • Fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.
  • Fyrir að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.
  • Fyrir að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.
  • Fyrir að hafa vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað, sem stofnað var til á árinu 2006, væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri.
  Framangreind háttsemi þykir varða við b-lið 10. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
  II.
  • Fyrir að hafa á framangreindu tímabili látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Á þessu tímabili var lítið fjallað á ráðherrafundum um hinn yfirvofandi háska, ekki var fjallað formlega um hann á ráðherrafundum og ekkert skráð um þau efni á fundunum. Var þó sérstök ástæða til þess, einkum eftir fund hans, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og formanns stjórnar Seðlabankans 7. febrúar 2008, eftir fund hans og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur með bankastjórn Seðlabankans 1. apríl 2008 og í kjölfar yfirlýsingar til sænsku, dönsku og norsku seðlabankanna sem undirrituð var 15. maí 2008. Forsætisráðherra átti ekki frumkvæði að formlegum ráðherrafundi um ástandið né heldur gaf hann ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á íslenska ríkið.
  Þykir þetta varða við c-lið 8. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga.

  Facebook

  Stórslys yfirvofandi á Alþingi

  Alþingismönnum ber lögum samkvæmt, hverjum og einum, að taka afstöðu til þess hvort ákæra eigi einhvern þeirra fjögurra ráðherra sem skýrsla þingmannanefndar tiltekur. Afstöðu sína getur þingmaður aðeins byggt á því hvort hann telji að einstakir ráðherrar hafi gerst brotlegir við lög, þannig að meiri líkur en minni séu á að leiði til sakfellingar. Ekkert annað getur komið til álita í því sambandi, síst af öllu persónuleg kynni. Alþingi er vettvangur almannahagsmuna.

  Eftir að þingmannanefndin skilaði skýrslu sinni komu fram raddir um að sú málsmeðferð sem landsdómur gerir ráð fyrir, og kveðið er á um í lögum og stjórnarskrá, sé brot á mannréttindum.

  Sérdómstólar sem svipar til landsdóms finnast víða í vestrænum ríkjum, og er danski Rigsretten nærtækur til samanburðar. Engir þeirra sérfræðinga sem kallaðir voru fyrir þingmannanefndina höfðu efasemdir um að landsdómur stæðist almenn mannréttindi. Sama er að segja um Sigurð Líndal lagaprófessor og Ásmund Helgason, fyrrverandi yfirlögfræðing Alþingis. Formaður þingmannanefndarinnar, Atli Gíslason, sagð á Alþingi: „Ég sem þingmaður og lögmaður og með langa reynslu í þessum málum hefði aldrei lagt upp með þessa þingsályktun varðandi ráðherraábyrgðina nema að ég teldi hana standast mannréttindi.“

  Síðbúnar athugasemdir um að landsdómur standist ekki almenn mannréttindi eru því í besta falli hæpnar. Á svo hæpnum forsendum er óréttlætanlegt að víkja til hliðar almennum lögum og stjórnarskrá. Væntanlega verður krafist frávísunar fyrir landsdómi með skírskotun til mannréttinda. Það er eina réttlætanlega leiðin að fara, verði fyrrum ráðherrar ákærðir.

  Að standa öðruvísi að málum væri hrein ögrun við almenning í landinu og stórslys.

  Skömm íslenskra stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna er mikil. Flokkarnir hafa, allir sem einn, þóst eiga Alþingi þjóðarinnar. Stjórnmálamenn hafa dregið nafn og virðingu þingsins ofan í svaðið þannig að þess finnast engin fordæmi frá því Alþingi var endurreist. Ætli þingmenn nú að víkja til hliðar bæði almennum lögum og stjórnarskrá, til þess að verja meint stjórnarskrárbrot fyrrum ráðherra, þá er komið nóg. Þá er tímabært að almenningur láti til sín taka og reki þetta lið af höndum sér.

  Facebook

  Viðvörun frá WHO: Meðvirkni breiðist hratt út

  Í guðsbænum látið þetta berast.

  Landlæknisembættið hefur fengið viðvörun frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni WHO. Að athuguðu máli var ákveðið að flytja inn 500 þúsund skammta af bóluefni gegn meðvirkni.

  Sjúkdómurinn hefur verið landlægur á Íslandi um ára bil en hans varð síðast verulega vart meðal klerka árið 1996. Í gær gaus sjúkdómurinn síðan aftur upp af miklum krafti, fyrst í Ölvesinu en barst þaðan um allt höfuðborgarsvæðið. Veikin virðist bæði stéttvís og flokksholl, og leggst að þessu sinni sérlega þungt á klíkuráðna embættismenn, fyrrum ráðherra og áhangendur tiltekinna stjórnmálaflokka.

  Einkenni sjúkdómsins eru ruglingslegt tal, tilefnislaus hneykslun og hitasóttarleg afneitun á staðreyndum.

  Þeim sem finna fyrir einkennum er ráðlagt að hafa hægt um sig heima fyrir og láta færa sér flóaða mjólk á sængina.

  Facebook

  Pólitísk spilling leiðir ávallt til vanhæfni

  Í síðasta pistli var bent á að stjórnmálaflokkarnir hefðu slegið eign sinni á stofnanir almennings, samfélagsins. Nefnt var dæmi um skaða sem þessi þjófnaður flokkanna hefur í för með sér:

  Til þess að íslenskur stjórnmálamaður eða embættismaður víki, þá þarf að sanna á hann brot, nánast eins og fyrir dómi. Engu skiptir þótt hann sé fullkomlega rúinn trausti. Honum verður ekki komið frá nema þá með gríðarlegum pólitískum þrýstingi frá almennum borgurum. Jafnvel beinum aðgerðum.

  Í heilbrigðum samfélögum er gerð sú sjálfsagða krafa að heilindi stjórnmálamanna og embættismanna séu hafin yfir skynsamlegan vafa. Mistök einstaklinga eru ekki látin skaða tiltrú almennings á mikilvægustu embættum og stofnunum.

  Þetta ofríki stjórnmálaflokkanna felur í sér viðhorf sem hefur verið lýst með þessum orðum: Ég á það, ég má það.

  Í grunninn er þetta pólitísk spilling, en skaðinn felst ekki aðeins í því að trausti rúnir flokkshestar fái að draga virðingu stofnana samfélagsins niður. Spillingin nær frá upphafi til enda.

  Pólitískar ráðningar eru svívirða útaf af fyrir sig. Það er svívirðilegt að fólk fái ekki notið hæfileika sinna, reynslu og menntunar vegna spillingar, að fólk sé ráðið í opinberar stöður vegna pólitískra tengsla, fyrst og fremst. Þeir sem ráðnir eru með þeim hætti geta reynist ágætlega, út af fyrir sig. Sá sem ráðinn er í stöðu vegna þess að hann er innundir í tilteknum flokki, hann veit hins vegar jafnvel og aðrir af hverju hann fékk stöðuna. Hann veit að frammistaða ræður ekki úrslitum. Hann kann að reynast metnaðarfullur í starfi en spillingin hvetur hann sannarlega ekki til þess, heldur þvert á móti. Í versta falli verður hann handbendi þeirra sem réðu hann. Ef hæfni ræður ekki úrslitum við ráðningar í mikilvægustu embætti og stöður hjá hinu opinbera, þá hlýtur almennt að stefna í óefni. Vanhæfni vindur upp á sig.

  Ég gæti staðið í brú á skipi og jafnvel stýrt eftir kompás, alveg þar til eitthvað bjátaði á. Ég gæti verið slökkviliðsstjóri í Reykjavík meðan ekki kviknaði í. Seðlabanka Íslands gæti ég stjórnað með ekki lakari niðurstöðu en fyrrverandi formaður bankastjórnar.

  Þegar litið er framhjá menntun, hæfileikum og reynslu, og vanhæfni safnast á alla pósta í mikilvægustu stofnunum landsins, þá er ekki von á góðu. Pólitísk spilling leiðir ávallt til vanhæfni og er ávísun á lakari lífskjör, misskiptingu og fátækt. – Ísland er skólabókardæmi þar um.

  Þörf er á róttækum breytingum.

  Facebook

  Almenningur einn til varnar

  Í heilbrigðum samfélögum er litið svo á að stjórnsýslan og opinberar stofnanir séu eign almennings, samfélagsins. Ekki á Íslandi. Hér hafa klíkur stjórnmálaflokkanna slegið eign sinni á allt heila klabbið. Þetta hefur ýmislegt í för með sér. Eitt dæmi:

  Til þess að íslenskur stjórnmálamaður eða embættismaður víki, þá þarf að sanna á hann brot, nánast eins og fyrir dómi. Engu skiptir þótt hann sé fullkomlega rúinn trausti. Honum verður ekki komið frá nema þá með gríðarlegum pólitískum þrýstingi frá almennum borgurum. Jafnvel beinum aðgerðum.

  Í heilbrigðum samfélögum er gerð sú sjálfsagða krafa að heilindi stjórnmálamanna og embættismanna séu hafin yfir skynsamlegan vafa. Mistök einstaklinga eru ekki látin skaða tiltrú almennings á mikilvægustu embættum og stofnunum.

  Því miður er lítil von á breytingum í bráð. Krafa um pólitíska ábyrgð verður seint hávær meðal stjórnmálastéttar sem öll stendur höllum fæti.

  Almenningur þarf sjálfur að verja stofnanir sínar.

  Facebook

  Ég geri grein fyrir atkvæði mínu

  Stjórnmálaflokkarnir skammta sér tvö þúsund milljónir úr sjóðum almennings á hverju kjörtímabili. Þessir „fjórir“ gamalgrónu.

  Peningana nota flokkarnir til að endurnýja völd sín, viðhalda valdaeinokun sinni. Í stað þess að efna til pólitískrar umræðu hella þeir yfir kjósendur taumlausum áróðri á fjögurra ára fresti. Þannig komast þeir hjá því að standa umbjóðendunum sínum reikningsskil gjörða sinna.

  Hvergi í Evrópu, að minnsta kosti, tíðkast sú villimennska að stjórnmálaflokkar auglýsi að vild í ljósvakamiðlum, nema á Íslandi. Fjárþörfin er eftir því. Hér á landi eru heldur ekki gerðar neinar sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja að sjónarmið þeirra sem ekki hafa úr peningum að spila, heyrist. Peningar ráða mestu um pólitísk völd á Íslandi.

  Flokkarnir eru hæstánægðir með þetta fyrirkomulag og hyggjast ekki breyta neinu. (prófkjörin og stórfelldar fégjafir til frambjóðenda eru kapítuli út af fyrir sig í þessari svívirðu).

  Kerfið svínvirkar. Yfirleitt baular Búkolla. Flestir rata á sinn bás á kjördag eða, í versta falli, á bás einhvers hinna rótgrónu. „Boðflennur“ ná sjaldan að raska systeminu að nokkru marki. Flokkarnir sitja einir að krásinni.

  Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá

  Tveir hinna rótgrónu flokka rændu aldagömlum fjármálastofnunum af þjóðinni og færðu í hendur sér þóknanlegum glæpamönnum. Umboðssvikin eru staðfest og játningar liggja að nokkru leyti fyrir. Ódæðið leiddi efnahagslegar og félagslegar hörmungar yfir samfélagið. Afleiðingarnar munu landsmenn glíma við um mörg ókomin ár.

  Flokkarnir sem unnu óæðisverkið voru Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur. – Þá tvo á enginn ærlegur maður að kjósa.

  Vanhæf ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var hrakin frá völdum í janúar 2009. Almenningur er stundum sagður voða vitlaus, en hann er örugglega ekki jafnvitlaus og sú ríkisstjórn var, og sannarlega ekki jafnyfirgengilega ábyrgðarlaus.

  Í eitt og hálft ár fyrir hrun voru bankamál ekki á dagskrá ríkisstjórnarfunda vanhæfu ríkisstjórnarinnar. Ekki í eitt einasta skipti! Hvað er hægt að segja um svona framgöngu? Að minnsta kosti er ekki hægt að taka alvarlega þá sem kjósa þessa tvo flokka til valda og vara um leið við ábyrgðarleysi.

  Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu finnst – þrátt fyrir fáheyrða og saknæma vanrækslu – alveg sjálfsagt að kjósendur treysti þeim enn til trúnaðarstarfa. Hvers konar brandari er þetta?

  Flokkarnir tveir geta ekki einu sinni gert hreint fyrir sínum eigin dyrum í kjölfarið á efnahagshruni. Þeir eru heldur ekki færir um að gera hreint fyrir dyrum kjósenda.

  Ergo:

  Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk og Samfylkingu er ótækt að kjósa. Jafnvel þótt þar megi finna velmeinandi fólk.

  Framboð Besta flokksins er heiðarleg og alvarleg tilraun til þess að ýta til hliðar kerfi sem keyrt hefur landið í þrot og er sjálft ólýðræðislegt, þjóðhættulegt, handónýtt skran.

  Því set ég X við Æ.

  Facebook  %d bloggurum líkar þetta: