Archive for the 'Hrunið' Category

Athugið! (vegna skýrslu rannsóknarnefndar)

 • Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er upphaf. Ekki endir.
 • Margir vilja eyðileggja trúverðugleika skýrslunnar. Meintir andstæðingar munu verða samstiga í því og beita öllum brögðum.
 • Stjórnvöldum er í lófa lagið að ná til allra helstu gerenda í efnahagshruninu, annarra en stjórnmálamanna, með því að höfða gegn þeim skaðabótamál. Stjórnvöldum ber að gera það. Almenningi ber að krefjast þess einum rómi. Skýrslan gerir kleift að ná til stjórnmálamanna eftir öðrum leiðum.
 • Halda þarf opinberar vitnaleiðslur um einstaka þætti sem í skýrslunni eru taldir eiga stærstan þátt efnahagshruninu, það er yfir þeim sem ekki verða ákærðir og eiga fyrir höndum opinber réttarhöld.
 • Einkavæðingu bankanna mætti ef til vill rannsaka sem auðgunarbrot.
 • Brot á lögum um ráðherraábyrgð fyrnast á þremur árum. Mikið veltur á hve skýrt skýrslan kveður á um ábyrgð einstakra ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Alþingi (níumannanefndin) er ekki einfært um að ákveða hvort og þá hvaða ráðherrar skuli dregnir fyrir Landsdóm. Vanhæfi kemur ekki til álita en fullkomlega ótrúverðugt er, við ríkjandi ástand, að þingmenn haldi einir á málinu. Við ákvörðun um ákæru þarf Alþingi að styðjast við opinberar álitsgerðir sérfræðinga sem njóta trausts almennings.
 • Búast má við lista í skýrslunni yfir mál sem rannsóknarnefndin vísar til sérstaks saksóknara. Nefndinni ber að vísa málum til sérstaks saksóknara, ef grunur er um lögbrot. Nefndin kaus að vísa öllum málum á einu bretti til sérstaks saksóknara við útgáfu skýrslunnar, í stað þess að gera það jafnóðum. Gera má ráð fyrir að bálkurinn verði langur og þar verði að finna fjárglæframenn í bland við embættismenn. Jafnvel fyrrverandi þingmenn og ráðherra.
 • Þingmenn þarf að svipta þinghelgi til að þeir verði ákærðir.
 • Þótt íslenskum stjórnmálaflokkum hafi farist flest illa úr hendi, þá er þeim lagið að tvístra fólki sjálfum sér til hagsbóta. Það heitir að deila og drottna. Að því munu þeir vinna sameiginlega, nú sem endranær.
 • Landsmenn þurfa að koma vitinu fyrir íslenska stjórnmála- og valdastétt, þannig að hún horfist í augu við siðferðilegt og pólitískt gjaldþrot sitt og axli ábyrgð á gjörðum sínum.
 • Almenningur þarf taka málin í eigin hendur og leggja nýjan grunn að samfélagi sínu. Líta í eigin barm og semja sér eigin stjórnarskrá, án beinna afskipta stjórnmálastéttar sem réttilega er rúin öllu trausti.

Facebook

Vaknið! Steingrímur og Jóhanna

Efasemdir meðal almennings um að Ísland sé réttarríki eru stórhættulegar samfélaginu.

Ykkur, ríkisstjórninni sem þið farið fyrir, ber að leggja til við Alþingi að sett verði almenn lög um eignarhald á fyrirtækjum sem fá afskrifaðar milljarðaskuldir vegna efnahagshrunsins. Gera þarf almennar kröfur til eigenda þannig að þeir geti ekki aukið hlut sinn í fyrirtækjum sem fá afskrifaðar slíkar skuldaupphæðir, né heldur sæti þeir sakarannsókn vegna hrunsins.

Að draga slíka lagasetningu lengur en orðið er jaðrar við vanrækslu. Hættið að skýla ykkur á bakvið bankana. Hættið að spila upp í hendurnar á Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Hrunflokkunum. Gerið það sem almenningur ætlast til af ykkur.  Vaknið!

Hafið hugfast:

Ekki er hægt að keyra lýðræðisríki jafnherfilega í þrot og gert var á Íslandi nema með stjórnarandstöðu sem bregst hlutverki sínu. Við hrunið hefði öll hin íslenska stjórnmálastétt átt að biðja þjóðina afsökunar og víkja til hliðar fyrir utanþingsstjórn, neyðarstjórn. Það varð því miður ekki, en þeim mun ríkari er skylda ykkar nú.

Gylfi ætti að hugleiða ásamt fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, að setja almenn lög og reglur um eignarhald á fyrirtækjum sem fá afskrifaðar skuldir. Gera þarf almennar kröfur til eigenda um að þeir geti ekki aukið hlut sinn í fyrirtækjum sem fá afskrifaðar skuldir, né heldur sæti þeir sakarannsókn vegna hrunsins.

Facebook

Leyndardómurinn mikli um icesave

Allt stefnir í mun hagstæðari niðurstöðu í icesave-hneykslinu en þá sem Alþingi samþykkti fyrir rúmum tveimur mánuðum. Það er óumdeilt. Líka stefnir í annað, sem er enn meira virði, að þjóðin geti unað við niðurstöðuna, að minnsta kosti „sátt að kalla“. Ákvörðun forseta Íslands um að vísa málinu til þjóðarinnar var því ekki til ónýtis, heldur þvert á móti.

Hins vegar má deila á forsetann fyrir að hafa ekki vísað ríkisábyrgðarlögunum til þjóðarinnar strax í haust, með þeim fyrirvörum sem Alþingi hafði sett, og áður en málið varð að þeirri eitruðu flækju sem fyrirsjáanalegt var að það yrði. Lang-líklegast er að þjóðin hefði samþykkt ríkisábyrgðina með fyrirvörunum. Hollensk og bresk stjórnvöld hefðu ekki getað afþakkað það samþykki og Icesave-deilan þar með verið leyst.

Ólíklegra er að þjóðin hefði sagt nei eða Hollendingar og Bretar hafnað „jákvæðri“ niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í öllu falli hefði það leitt til nýrra samningaviðræðna með hreint borð. Annars vegar hefðu íslensk stjórnvöld staðið við yfirlýsingar sínar en þjóðin neytt stjórnarskrárbundins réttar síns og ógilt þær, og hafnað ríkisábyrgð á grundvelli fyrirliggjandi samninga. Hins vegar hefðu stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi orðið að koma með nýtt útspil eftir að hafa hafnað samþykki íslensku þjóðarinnar fyrir ríkisábyrgð.

Hinn stóri leyndardómur icesave-hneykslisins er sá, að það var aldrei hægt að greiða úr því farsællega nema með atbeina þjóðarinnar (það sagði ég reyndar forsetanum í haust). Annað hefði valdið samfélaginu stórskaða. Samfélag sem er fullt af beiskju og sundurlyndi kemst ekkert áfram.

Icesave er táknmynd hrunsins. Aldrei var hægt ætlast til að almenningur sætti sig við að vera algjörlega sniðgenginn í málinu. Að íslenskir stjórnmálamenn hefðu einir í hendi sér hvernig þjóðin gengist undir byrðina sem vanræksla þeirra, siðpilling og vanhæfni hefur búið henni. Aldrei var heldur hægt að búast við öðru en það tæki nokkurn tíma fyrir fólk að horfast í augu við hrikalegar afleiðingar þeirra mistaka sem orðið hafa við stjórn landsins.

Icesave-byrðarnar eru í stuttu máli þannig til komnar, að stjórnmálamenn stálu Landsbanka Íslands af fólkinu og afhentu gæðingum sínum og fjárglæframönnum. Trúðarnir launuðu að sjálfsögðu greiðann, og það tók þá sex ár að setja hinn 120 ára banka á hausinn, eyðileggja fjármálakerfi landsins og setja líf landsmanna úr skorðum.

Að þessum trakteringum loknum barst síðan viðbótarglaðningur vegna ævintýra flokksgæðinganna í Bretlandi og Hollandi. Því reyndist almenningi skiljanlega erfitt að kyngja, jafnvel þótt Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir væru gerð út af siðferðilega gjaldþrota kollegum sínum til þess að afhenda reikninginn.

P. S.
– Ömurlegt er að hlýða á forsætisráðherra og fjármálaráðherra fara niðrandi orðum um atkvæðagreiðslu þjóðarinnar á laugardag. Auðvitað mæta landsmenn á kjörstað og neyta atkvæðisréttar síns.

Facebook

VANRÆKSLA ráðherra púkkar undir mafíuríki

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs ætlar að láta gott heita að hamfarakapítalistar erfi landið. Menn sem kölluðu samfélagsleg móðuharðindi yfir þjóðina. Bankamálaráðherrann segir ástæðuna þá að við búum í réttarríki. Forsætisráðherra telur afskipti af bönkum viðsjárverð, og útskýrði það með svofelldum orðum á þingi hins alræmda Viðskiptaráðs í gær (viðeigandi):

„Þeim sjónarmiðum hefur verið haldið fram að ríkisstjórnin ætli að láta það afskiptalaust að sömu persónur og leikendur og fóru með stórt hlutverk í fjármála- og viðskiptalífinu fyrir hrun, verði áfram við stjórnvölinn. Að þessu tilefni vil ég láta koma fram að ég er algerlega mótfallin því að stjórnmálamenn handstýri fjármálakerfinu.“

Þetta er dálítið snúið, því ríkisstjórnin ætlar reyndar að láta það afskiptalaust, „að sömu persónur og leikendur og fóru með stórt hlutverk í fjármála- og viðskiptalífinu fyrir hrun, verði áfram við stjórnvölinn“, og út á það ganga afsakanir ráðherrans.

Máli sínu til stuðnings vísaði Jóhanna Sigurðardóttir til einkavæðingar bankanna á sínum tíma, en þá stálu stjórnmálamenn bönkunum og létu í hendur klíkubræðra sinna, sem síðan settu bankana á hausinn og þjóðina með. Ólafur nokkur Ólafsson, kenndur við Samskip, kom þar við sögu ásamt fleiri virðingarmönnum sem vilja endurnýja og staðfesta yfirráð sín í íslensku samfélagi. Nú í skjóli Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Jóhanna Sigurðardóttir hlýtur að telja öll afskipti stjórnmálamanna af bönkum ógurlega vond. Önnur helsta ástæða hrunsins er nefnilega af flestum, nema heittrúuðum frjálshyggjumönnum, álitin vera afskiptaleysi stjórnvalda og stjórnmálamanna. Ófullnægjandi löggjöf og regluverk, ásamt slöku eftirliti. Í einu orði sagt, VANRÆKSLA.

Svo er það réttarríkið á Íslandi. Áhyggjur landsmanna af því snúast helst um hvort sá sterkari geti, refsilaust og án alvarlegra afleiðinga, komist upp með að svipta þann veikari eignum og lífsafkomu. Ríki þar sem slíkt viðgengst getur ekki talist réttarríki. Áhyggjur Gylfa Magnússonar bankamálaráðherra eru af öðrum toga. Hann vill slá skjaldborg um hamfarakapítalistana og gæta þess að þeir njóti fullra og óskoraðra réttinda. Hvað sem það kostar land og lýð. Engu skiptir t.d.  þótt einn þeirra sæti sakarannsókn sem grunaður maður í einu mesta fjársvikamáli sem sögur fara af. Máli sem hefur helsært íslenskt samfélag. Gylfi gerir ekki neitt. Ekki frekar en Jóhanna.

Afsakanir þessara tveggja ráðherra á vanrækslu ríkisstjórnarinnar eru að engu hafandi. Almenningur á að reka af höndum hverja þá ríkisstjórn sem lætur viðgangast að mafíuríki festist í sessi á Íslandi. Almenningur má almennt ekki vanrækja borgaralegar skyldur sínar og dyggðir, og alls ekki þegar stjórnvöld bregðast algjörlega. – Ábyrgð þeirra er mikil sem verja vanrækslu ríkisstjórnarinnar með  þögn og aðgerðarleysi.

Vinsamlega hugleiðið þetta >>

https://dagskammtur.wordpress.com/2010/02/12/busahaldabyltingin-ver%C3%B0ur-a%C3%B0-halda-afram/

Facebook

En hvað ef þeir gera það ekki, Jóhanna?

„Forsætisráðherra segir óeðlilegt ef þeir sem stóðu að útrásinni fái sérstaka fyrirgreiðslu og afskriftir í bankakerfinu áður en niðurstaða sé fengin í rannsókn bankahrunsins. Eftirlitsnefnd, Bankasýslan og bankastjórnir eigi að sjá til þess að jafnræði ríki.“

Forsætisráðherra finnst líka að Björgólfur Thor og Ólafur Ólafsson eigi að halda sig til hlés.

En ef þeir gera það ekki? Og hvað ef eftirlitsnefndin, Bankasýslan og bankastjórnirnar láta gott heita að endurreisa hamfarakapítalistana sem óðu á skítugum skónum yfir samfélagið? Hvað ber forsætisráðherra landsins þá að gera?

Vera agndofa?

http://visir.is/article/20100212/FRETTIR01/304004113

Facebook

Búsáhaldabyltingin verður að halda áfram

Búsáhaldabyltingin er ekki yfirstaðin. Ef svo væri, þá hefði hún algerlega mistekist.

Á næstu mánuðum ræðst hvort íslenskt samfélag verður mun betra en það var fyrir hrun eða mun verra. Ef hið gamla, spillta og úrsérgengna verður endurreist, þá verður samfélagið verra. Ef við ætlum að kyngja því að litlar sem engar raunverulegar breytingar geti orðið, þá munum við fyrirlíta eigið samfélag. Hér yrði í raun ólíft. Aðeins ein leið er siðleg og boðleg. Hún er sú að við, almennir borgarar, setjum fram skýrar kröfur um breytingar og fylgjum þeim fast og skipulega eftir. Engir aðrir munu verða til þess, og alls ekki stjórnmálaflokkarnir. Höfum við ekki reynt það síðustu mánuði? Jú, og það er að vonum. Flokkarnir hafa á síðustu áratugum, en sérstaklega hin síðari ár, komið sér þægilega fyrir í kerfinu sem hrundi. Það eru hreinlega ósjálfráð viðbrögð þeirra að reyna að tjasla því saman á ný. Flokkarnir eru sprottnir úr hinu gamla. Á því byggja þeir tilveru sína, aðstöðu og völd. Og þeir munu ekki gefa það upp á bátinn ótilneyddir. Líklega er flokkunum fyrirmunað að sjá fyrir sér nýtt og betra, eitthvað annað en endurlífgunartilraunir á því gamla.

Búsáhaldabyltingin hrakti frá völdum vanhæfa ríkisstjórn og ruddi úr vegi nokkrum óhæfum embættismönnum. Í búsáhaldabyltingunni mótuðust líka nokkrar meginkröfur sem lúta að auknu lýðræði. Þar er helst að nefna kröfur um þjóðaratkvæðagreiðslur, persónukjör og stjórnlagaþing. Viðbrögð stjórnvalda við þessum kröfum sýna ótvírætt að byltingin þarf að halda áfram af krafti. Ríkisstjórnin hefur í tvígang hummað fram af sér bæði persónukjör og stjórnlagaþing. Áhugaleysið er algjört. Og stjórnarandstaðan gerir síður en svo athugasemdir við framgöngu stjórnarinnar að þessu leyti, enda flokkarnir einhuga í andúð sinni og hræðslu við aukin áhrif kjósenda. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslur hefur heldur ekki verið afgreitt. Sem betur fer, má ef til vill segja, því afurðin ber öll einkenni höfundarins. Þar er ofríki flokkanna í fyrirrúmi en áhrif almennra kjósenda hunsuð.

Undanbragðalaust uppgjör við hrunið var og er grundvallarkrafa búsáhaldabyltingarinnar. Ekki þarf að fálma eftir blaði því til sönnunar. Krafan er rist í hjarta nánast hvers einasta manns í landinu. Rannsókn sérstaks saksóknara gengur betur en til var stofnað. Ástæðan er sú að nokkrir almennir borgarar gengust fyrir því að fá til landsins hugsjónakonuna og sérfræðinginn Evu Joly. Fyrir þrýsting frá almenningi féllst Eva Joly síðan á að liðsinna sérstökum saksóknara. Og hún hefur með harðri hendi rekið stjórnvöld til þess að taka rannsóknina alvarlega og kosta til því sem þarf. Mjög miklar efasemdir eru samt sem áður uppi um að nokkur sem máli skiptir verði látinn sæta ábyrgð að lögum. Efasemdir um að Ísland sé réttarríki.

Eins og er stefnir sem sagt alls ekki í að Nýtt Ísland verði að veruleika. Miklu fremur er verið að endurreisa hið gamla. Um það vitna til dæmis áform ríkisstjórnarinnar um að greiða fyrir áframhaldandi og auknum umsvifum fjárglæframannsins Björgólfs Thors Björgólfssonar í íslensku viðskiptalífi. Til dæmis, sagði ég. Einnig fyrirætlanir um að Ólafur Ólafsson haldi 90% hlut í Samskipum, maður sem sætir sakarannsókn sem höfuðpaur í einu stærsta svindli hrunsins. Slegin er skjaldborg um hamfarakapítalista sem skildu íslenskt samfélag eftir í sárum um leið og forysta ríkisstjórnarinnar þykist ekki bera ábyrgð á neinu af þessu og ekkert geta gert.

Of snemmt er að dæma um verk rannsóknarnefndar Alþingis, en borðleggjandi að opinberar vitnaleiðslur þurfa að fylgja í kjölfar skýrslu nefndarinnar. Þjóðin verður að fá að heyra bæði fyrrverandi og núverandi stjórnmálamenn og embættismenn, og ef til vill fleiri, svara gagnrýnum spurningum kunnáttufólks í sambandi við orsakir hrunsins. Það er, svör þeirra sem ekki verða hreinlega ákærðir og eiga fyrir höndum opinber réttarhöld. Flokkarnir á Alþingi eða ríkisstjórnin munu ekki standa fyrir slíkum vitanleiðslum nema neydd til þess af almenningi.

Því er enn ósvarað hvort gerðar verði breytingar í íslenskri stjórnsýslu þannig að hún verði ekki áfram gróðrarstía spillingar og vanhæfni. Miðað við það sem á undan er gengið, þá eru breytingar meir undir almenningi komnar en stjórnvöldum. Í raun veltur allt á því hvort almenningur fylgir kröfum sínum eftir með aðgerðum eða gefst upp og lætur samfélagið hrægömmum eftir.

Búsáhaldabyltingin felur í sér sögulegt tækifæri sem má ekki glutra niður. Mikilvægasta úrlausnarefnið er að finna út hvernig halda á byltingunni áfram. Hér þarf að mynda breiðan borgaralegan vettvang, sem hefði það hlutverk að skýra meginkröfur byltingarinnar og fylgja þeim eftir. Framboðshugmyndir á að útiloka frá byrjun. Austurvöllur er áhrifameiri stofnun fyrir grasrótarsamtök en Alþingi.

Hverjir ættu að hafa forystu um að stofna slíkan vettvang? Ég hef orðað það svo, að Ísland væri þjakað af fámenni, persónulegri nálægð, þrælsótta og spillingu. Að öðrum kosti hefði þegar myndast hér borgaralegur vettvangur með dugandi háskólasamfélag, róttækt fólk úr hreyfingu launafólks, listamenn og námsmenn í fylkingarbrjósti. Ef til vill er þetta rangt mat. Allt hefur sinn tíma.

Háskóli Íslands hefur af einhverjum ástæðum notið mikils trausts almennings. Ef til vill má almenningur vænta einhvers þaðan.

Facebook

Icesave-samningar á nýjum grunni

Samningaumleitanir Íslendinga, Breta og Hollendinga eru hafnar að nýju. Í því felast tækifæri sem íslensk stjórnvöld verða að nýta.

Samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar þurfa að byggja á þeirri grundvallarforsendu að samið verði á nýjum grunni, þannig að tekið verði tillit til eftirfarandi:

 • Meðábyrgð hollenskra og breskra stjórnvalda, og meðábyrgð ESB (Draga þarf ESB að samningaborðinu með öllum ráðum, e.t.v. með því að fá milligöngumann frá sambandinu.)
 • Greiðslur Íslendinga verði innan siðlegra marka

Það sem veikir samningsstöðu íslenskra stjórnvalda mest er panik-samþykkt Alþingis í tíð ríkisstjórnar Geirs Haarde og Sjálfstæðisflokksins frá 5. desember 2008, þar sem „Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innistæðutryggingakerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum.“ Af sama toga er viljayfirlýsing AGS og íslenskra stjórnvalda, undirrituð af Davíð Oddssyni og Árna Mathiesen 15. nóvember 2008.

Í hvorugu felst þó að Íslendingar beri einir alla ábyrgð. Lagalegar forsendur fyrir ríkisábyrgð eru ekki fyrir hendi og aðeins hæpnar lagalegar forsendur fyrir skuldinni sjálfri. Ef til vill má líka segja að almenningur á Íslandi hafi ómerkt þessi afglöp stjórnvalda með því að reka af höndum sér bæði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og seðlabankastjórann. Og nú síðast með því að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um ríkisábyrgðina. Að minnsta kosti verða afglöpin ómerkt eftir að ríkisábyrgðin hefur verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Til að ná árangri í komandi samningaviðræðum þarf að vera fyrir hendi einarður vilji innan ríkisstjórnarinnar og útsjónarsemi. Stjórnin hefur hálfvolgan stuðning almennings vegna þess að ekkert betra er boði. Lánist ríkisstjórninni að rífa samningana úr því fari sem þeir eru í og semja á siðlegri og sanngjarnari grunni, þá hefur hún jafnframt borgið lífi sínu. Að öðrum kosti er stjórnin búin að vera. Andlitslyfting núverandi samninga dugir ekki til.

Facebook%d bloggurum líkar þetta: