Ég geri grein fyrir atkvæði mínu

Stjórnmálaflokkarnir skammta sér tvö þúsund milljónir úr sjóðum almennings á hverju kjörtímabili. Þessir „fjórir“ gamalgrónu.

Peningana nota flokkarnir til að endurnýja völd sín, viðhalda valdaeinokun sinni. Í stað þess að efna til pólitískrar umræðu hella þeir yfir kjósendur taumlausum áróðri á fjögurra ára fresti. Þannig komast þeir hjá því að standa umbjóðendunum sínum reikningsskil gjörða sinna.

Hvergi í Evrópu, að minnsta kosti, tíðkast sú villimennska að stjórnmálaflokkar auglýsi að vild í ljósvakamiðlum, nema á Íslandi. Fjárþörfin er eftir því. Hér á landi eru heldur ekki gerðar neinar sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja að sjónarmið þeirra sem ekki hafa úr peningum að spila, heyrist. Peningar ráða mestu um pólitísk völd á Íslandi.

Flokkarnir eru hæstánægðir með þetta fyrirkomulag og hyggjast ekki breyta neinu. (prófkjörin og stórfelldar fégjafir til frambjóðenda eru kapítuli út af fyrir sig í þessari svívirðu).

Kerfið svínvirkar. Yfirleitt baular Búkolla. Flestir rata á sinn bás á kjördag eða, í versta falli, á bás einhvers hinna rótgrónu. „Boðflennur“ ná sjaldan að raska systeminu að nokkru marki. Flokkarnir sitja einir að krásinni.

Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá

Tveir hinna rótgrónu flokka rændu aldagömlum fjármálastofnunum af þjóðinni og færðu í hendur sér þóknanlegum glæpamönnum. Umboðssvikin eru staðfest og játningar liggja að nokkru leyti fyrir. Ódæðið leiddi efnahagslegar og félagslegar hörmungar yfir samfélagið. Afleiðingarnar munu landsmenn glíma við um mörg ókomin ár.

Flokkarnir sem unnu óæðisverkið voru Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur. – Þá tvo á enginn ærlegur maður að kjósa.

Vanhæf ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var hrakin frá völdum í janúar 2009. Almenningur er stundum sagður voða vitlaus, en hann er örugglega ekki jafnvitlaus og sú ríkisstjórn var, og sannarlega ekki jafnyfirgengilega ábyrgðarlaus.

Í eitt og hálft ár fyrir hrun voru bankamál ekki á dagskrá ríkisstjórnarfunda vanhæfu ríkisstjórnarinnar. Ekki í eitt einasta skipti! Hvað er hægt að segja um svona framgöngu? Að minnsta kosti er ekki hægt að taka alvarlega þá sem kjósa þessa tvo flokka til valda og vara um leið við ábyrgðarleysi.

Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu finnst – þrátt fyrir fáheyrða og saknæma vanrækslu – alveg sjálfsagt að kjósendur treysti þeim enn til trúnaðarstarfa. Hvers konar brandari er þetta?

Flokkarnir tveir geta ekki einu sinni gert hreint fyrir sínum eigin dyrum í kjölfarið á efnahagshruni. Þeir eru heldur ekki færir um að gera hreint fyrir dyrum kjósenda.

Ergo:

Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk og Samfylkingu er ótækt að kjósa. Jafnvel þótt þar megi finna velmeinandi fólk.

Framboð Besta flokksins er heiðarleg og alvarleg tilraun til þess að ýta til hliðar kerfi sem keyrt hefur landið í þrot og er sjálft ólýðræðislegt, þjóðhættulegt, handónýtt skran.

Því set ég X við Æ.

Facebook

3 Responses to “Ég geri grein fyrir atkvæði mínu”


 1. 1 Jóhannes Laxdal maí 29, 2010 kl. 13:44

  Kjósum ærlegt fólk. Setjum öll x við Æ í dag

 2. 2 Hans Kristján Árnason maí 29, 2010 kl. 15:11

  Hjartanlega sammála þér! X-Æ !!!!!!!!!!!!!!

  …og svo er einnig gott að lesa Láru Hönnu í dag á blogginu hennar um Hönnu Birnu borgarstjóra og hvaðan hún er sprottin – innan úr innstu valdaklíiku Sjálfstæðisflokksins – en hún var aðstoðarframkvæmdastjóri flokksins undir Kjartani Gunnarssyni, og því aðstoðarframkvæmdastjóri Davíðs Oddssonar, sem formanns flokksins. Hún veit allt um þann subbuskap sem þar fyrirfinnst. Og hún fylgdi foringjanum t.d. þegar hann ákvað að lýsa yfir stuðningi við Bush og BNA í innrásinni í Írak – og varði þá viðbjóðslegu ákvörðun með kjafti og klóm (þó vitað væri að svona innrás kostaði ómælda tölu mannlífa, karla kvenna og barna, sakleysingja og óbreyttra borgara).

  … sagði svo einhver um einhvern að hann hefði skítlegt eðli?

 3. 3 Rakel Sigurgeirsdóttir júní 1, 2010 kl. 15:07

  Flottur pistill hjá þér Hjörtur! Mér finnst pistlarnir þínir reyndar allir góðir en þessi er sérstaklega vel kryddaður:-)


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: