Eiga þau engin uppörvandi svör?

Robert Z. Aliber, prófessor emeritus við háskólann í Chicago, lét fræg orð falla um íslensk stjórnvöld fyrst eftir hrunið. Hann sagði að nýir leiðtogar sem væru valdir af handahófi úr símaskrá gætu tæplega valdið jafn miklum efnahagslegum glundroða og þau sem þá voru við völd. Nú hefur liðið verið endurnýjað, að hluta. Má maður samt vonast eftir nýrri hugsun, breytingum sem gefa almenningi von? Ef ekki, þá þurfa Framsóknarflokkur og Sjáflstæðisflokkur aðeins að bíða. Völdin munu falla þeim í hendur.

Mögnuð skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis liggur fyrir og nú hyggjast stjórnmálamenn taka við. Þeir hljóta að spyrja sig hvað sé mikilvægast fyrir íslenskt samfélag þegar verstu grunsemdir almennings um stjórnmál landsins, stjórnsýslu og viðskiptalíf hafa verið staðfestar. Svörin liggja raunar fyrir í aðalatriðum. Hér þarf í fyrsta lagi að endurheimta traust á ríkisvaldinu. Í öðru lagi þarf að gera einarðlega upp við hið fjárhagslega, pólitíska og siðferðilega þrot sem landinu var stefnt í. Í þriðja lagi þarf að leggja grunn að heilbrigðu samfélagi. Þetta þrennt hangir órjúfanlega saman.

Endurheimta þarf lágmarkstraust á ríkisvaldinu strax. Til að það megi verða þurfa fulltrúar  á Alþingi að sýna – á afgerandi hátt – að þeir geti brugðist við skýrslu rannsóknarnefndarinnar með hagsmuni almennings að leiðarljósi.

Mikilvægt skref var stigið strax eftir að stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var hrakin frá völdum, þegar þau Ragna Árnadóttir og Gylfi Magnússon voru fengin til að taka sæti í ríkisstjórn. Það var gert til að auka tiltrú almennings á stjórninni. Nú er tímabært að ganga alla leið. Þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna eiga að hafa forgöngu um að setja saman ríkisstjórn sem skipuð er fólki sem ekki á sæti á Alþingi og stendur utan stjórnmálaflokka. Með öðrum orðum, koma á ríkisstjórn sem almenningur getur treyst og borið virðingu fyrir. Nóg er af trúverðugu fólki úti í samfélaginu en Alþingi býr við fordæmalaust vantraust. Það er bláköld staðreynd sem þingmenn verða að horfast í augu við. Rakið er að óska eftir því að þau sem sátu í rannsóknarnefnd Alþingis taki sæti í ríkisstjórn. Páll Hreinsson, Sigríður Benediktsdóttir og Tryggvi Gunnarsson hafa áunnið sér traust og virðingu almennings og þekkja ástand samfélagsins betur en flestir aðrir.

Ríkisstjórn af þessu tagi myndi kallast utanþingsstjórn, en hún væri allt annars eðlis en utanþingsstjórnin sem sat hér á stríðsárunum og var skipuð fólki sem Sveinn Björnsson ríkisstjóri (síðar forseti) hafði velþóknun á. Sú stjórn kom til vegna þess að flokkunum á Alþingi hafði mistekist að mynda ríkisstjórn. Utanþingsstjórnin sem hér um ræðir yrði sett saman að frumkvæði meirihluta Alþingis og án afskipta forseta Íslands, nema að formi til líkt og venjulega.

Utanþingsstjórnin fengi ákveðinn tíma til að sinna tilteknum verkefnum sérstaklega: Neyðarráðstöfunum fyrir heimilin í landinu, uppgjöri við hrunið, endurskipulagningu stjórnsýslunnar og undirbúningi stjórnlagaþings. Allt eru þetta lífsnauðsynleg verk sem almenningur treystir stjórnmálaflokkunum ekki til þess að vinna sómasamlega.

Flestir jánka því að hugmyndin um slíka utanþingsstjórn sé góð en fæstir hafa trú á að núverandi fulltrúar á Alþingi séu líklegir til þess að koma á slíkri stjórn. Þá liggur beinast við að spyrja hvort íslensk stjórnmál eigi engin uppbyggileg svör við skýrslunni, hvort þaðan sé engra nýmæla að vænta? Ef svo er, hvað er þá til ráða?

Stjórnmálamenn hafa nú tækifæri til að koma á starfhæfri ríkisstjórn sem fólk treystir og viðurkenna  um leið ábyrgð sína með því að stíga til hliðar. Það væri þýðingarmikill áfangi í að endurheimta traust og virðingu Alþingis. Þannig yrði jafnframt hægt að endurvekja traust umheimsins á íslenskum stjórnvöldum og stjórnmálamönnum.

Allt veltur á því að þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna, og ef til vill fleiri þingmenn, þekki sinn vitjunartíma.

P. S.

Ruglingur er með heitin þjóðstjórn og utanþingsstjórn, en þetta eru söguleg fyrirbrigði. Til einföldunar má segja að þjóðstjórn  sé stjórn allra flokka á Alþingi þar sem ráðherrar eru jafnframt þingmenn. Utanþingsstjórn er stjórn sem situr í umboði Alþingis en ráðherrar koma ekki úr röðum þingmanna.  Í reynd er þetta örlítið flóknara. Ríkisstjórn sem var mynduð hér árið 1939 vegna yfirvofandi styrjaldar í Evrópu, af Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Alþýðuflokki, kallaði sig þjóðstjórn. (Sósíalistaflokkurinn var hafður útundan, en hinir flokkarnir þrír, lýðræðisflokkarnir eins og þeir kölluðu sjálfa sig, töldu hann ekki með þjóðinni). Þingmenn gengdu ráðherraembættum í þeirri stjórn, eins og venja er til. Reynt var að mynda þjóðstjórn allra fjögurra flokkanna árið 1944, en án árangurs. Utanþingsstjórn var stjórnin kölluð sem sett var saman af Sveini Björnssyni ríkisstjóra (síðar forseta) árið 1942.  Sú stjórn sat fram í október árið 1944 og var eingöngu skipuð mönnum sem ekki áttu sæti á Alþingi, en voru reyndar gamlir refir úr stjórnmálum og viðskiptum. Í daglegu tali var hún kölluð Coca Cola-stjórnin.

Facebook

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: