Leyndardómurinn mikli um icesave

Allt stefnir í mun hagstæðari niðurstöðu í icesave-hneykslinu en þá sem Alþingi samþykkti fyrir rúmum tveimur mánuðum. Það er óumdeilt. Líka stefnir í annað, sem er enn meira virði, að þjóðin geti unað við niðurstöðuna, að minnsta kosti „sátt að kalla“. Ákvörðun forseta Íslands um að vísa málinu til þjóðarinnar var því ekki til ónýtis, heldur þvert á móti.

Hins vegar má deila á forsetann fyrir að hafa ekki vísað ríkisábyrgðarlögunum til þjóðarinnar strax í haust, með þeim fyrirvörum sem Alþingi hafði sett, og áður en málið varð að þeirri eitruðu flækju sem fyrirsjáanalegt var að það yrði. Lang-líklegast er að þjóðin hefði samþykkt ríkisábyrgðina með fyrirvörunum. Hollensk og bresk stjórnvöld hefðu ekki getað afþakkað það samþykki og Icesave-deilan þar með verið leyst.

Ólíklegra er að þjóðin hefði sagt nei eða Hollendingar og Bretar hafnað „jákvæðri“ niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í öllu falli hefði það leitt til nýrra samningaviðræðna með hreint borð. Annars vegar hefðu íslensk stjórnvöld staðið við yfirlýsingar sínar en þjóðin neytt stjórnarskrárbundins réttar síns og ógilt þær, og hafnað ríkisábyrgð á grundvelli fyrirliggjandi samninga. Hins vegar hefðu stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi orðið að koma með nýtt útspil eftir að hafa hafnað samþykki íslensku þjóðarinnar fyrir ríkisábyrgð.

Hinn stóri leyndardómur icesave-hneykslisins er sá, að það var aldrei hægt að greiða úr því farsællega nema með atbeina þjóðarinnar (það sagði ég reyndar forsetanum í haust). Annað hefði valdið samfélaginu stórskaða. Samfélag sem er fullt af beiskju og sundurlyndi kemst ekkert áfram.

Icesave er táknmynd hrunsins. Aldrei var hægt ætlast til að almenningur sætti sig við að vera algjörlega sniðgenginn í málinu. Að íslenskir stjórnmálamenn hefðu einir í hendi sér hvernig þjóðin gengist undir byrðina sem vanræksla þeirra, siðpilling og vanhæfni hefur búið henni. Aldrei var heldur hægt að búast við öðru en það tæki nokkurn tíma fyrir fólk að horfast í augu við hrikalegar afleiðingar þeirra mistaka sem orðið hafa við stjórn landsins.

Icesave-byrðarnar eru í stuttu máli þannig til komnar, að stjórnmálamenn stálu Landsbanka Íslands af fólkinu og afhentu gæðingum sínum og fjárglæframönnum. Trúðarnir launuðu að sjálfsögðu greiðann, og það tók þá sex ár að setja hinn 120 ára banka á hausinn, eyðileggja fjármálakerfi landsins og setja líf landsmanna úr skorðum.

Að þessum trakteringum loknum barst síðan viðbótarglaðningur vegna ævintýra flokksgæðinganna í Bretlandi og Hollandi. Því reyndist almenningi skiljanlega erfitt að kyngja, jafnvel þótt Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir væru gerð út af siðferðilega gjaldþrota kollegum sínum til þess að afhenda reikninginn.

P. S.
– Ömurlegt er að hlýða á forsætisráðherra og fjármálaráðherra fara niðrandi orðum um atkvæðagreiðslu þjóðarinnar á laugardag. Auðvitað mæta landsmenn á kjörstað og neyta atkvæðisréttar síns.

Facebook

3 Responses to “Leyndardómurinn mikli um icesave”


 1. 1 Sæmundur Bjarnason mars 4, 2010 kl. 13:14

  Að mestu sammála þér. Í hvaða stöðu hefði Ólafur Ragnar Grímsson samt verið ef hann hefði gert þetta? Mjög slæmri held ég. Aftur á móti virðist hann ætla að koma ágætlega útúr þessu núna. Forsetaembættið sem slíkt líka.

 2. 2 Hjörtur Hjartarson mars 5, 2010 kl. 09:35

  Alveg rétt Sæmundur, staða Ólafs væri ef til vill ekki góð, en staða þjóðarinnar hefði batnað.

 3. 3 Haraldur Guðbjartsson mars 5, 2010 kl. 20:47

  Góð skýring hjá þér, vandinn er bara sá að sennilega höfum við
  320 þús. svona skýringar og öllum finnst þeirra best.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: