Búsáhaldabyltingin verður að halda áfram

Búsáhaldabyltingin er ekki yfirstaðin. Ef svo væri, þá hefði hún algerlega mistekist.

Á næstu mánuðum ræðst hvort íslenskt samfélag verður mun betra en það var fyrir hrun eða mun verra. Ef hið gamla, spillta og úrsérgengna verður endurreist, þá verður samfélagið verra. Ef við ætlum að kyngja því að litlar sem engar raunverulegar breytingar geti orðið, þá munum við fyrirlíta eigið samfélag. Hér yrði í raun ólíft. Aðeins ein leið er siðleg og boðleg. Hún er sú að við, almennir borgarar, setjum fram skýrar kröfur um breytingar og fylgjum þeim fast og skipulega eftir. Engir aðrir munu verða til þess, og alls ekki stjórnmálaflokkarnir. Höfum við ekki reynt það síðustu mánuði? Jú, og það er að vonum. Flokkarnir hafa á síðustu áratugum, en sérstaklega hin síðari ár, komið sér þægilega fyrir í kerfinu sem hrundi. Það eru hreinlega ósjálfráð viðbrögð þeirra að reyna að tjasla því saman á ný. Flokkarnir eru sprottnir úr hinu gamla. Á því byggja þeir tilveru sína, aðstöðu og völd. Og þeir munu ekki gefa það upp á bátinn ótilneyddir. Líklega er flokkunum fyrirmunað að sjá fyrir sér nýtt og betra, eitthvað annað en endurlífgunartilraunir á því gamla.

Búsáhaldabyltingin hrakti frá völdum vanhæfa ríkisstjórn og ruddi úr vegi nokkrum óhæfum embættismönnum. Í búsáhaldabyltingunni mótuðust líka nokkrar meginkröfur sem lúta að auknu lýðræði. Þar er helst að nefna kröfur um þjóðaratkvæðagreiðslur, persónukjör og stjórnlagaþing. Viðbrögð stjórnvalda við þessum kröfum sýna ótvírætt að byltingin þarf að halda áfram af krafti. Ríkisstjórnin hefur í tvígang hummað fram af sér bæði persónukjör og stjórnlagaþing. Áhugaleysið er algjört. Og stjórnarandstaðan gerir síður en svo athugasemdir við framgöngu stjórnarinnar að þessu leyti, enda flokkarnir einhuga í andúð sinni og hræðslu við aukin áhrif kjósenda. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslur hefur heldur ekki verið afgreitt. Sem betur fer, má ef til vill segja, því afurðin ber öll einkenni höfundarins. Þar er ofríki flokkanna í fyrirrúmi en áhrif almennra kjósenda hunsuð.

Undanbragðalaust uppgjör við hrunið var og er grundvallarkrafa búsáhaldabyltingarinnar. Ekki þarf að fálma eftir blaði því til sönnunar. Krafan er rist í hjarta nánast hvers einasta manns í landinu. Rannsókn sérstaks saksóknara gengur betur en til var stofnað. Ástæðan er sú að nokkrir almennir borgarar gengust fyrir því að fá til landsins hugsjónakonuna og sérfræðinginn Evu Joly. Fyrir þrýsting frá almenningi féllst Eva Joly síðan á að liðsinna sérstökum saksóknara. Og hún hefur með harðri hendi rekið stjórnvöld til þess að taka rannsóknina alvarlega og kosta til því sem þarf. Mjög miklar efasemdir eru samt sem áður uppi um að nokkur sem máli skiptir verði látinn sæta ábyrgð að lögum. Efasemdir um að Ísland sé réttarríki.

Eins og er stefnir sem sagt alls ekki í að Nýtt Ísland verði að veruleika. Miklu fremur er verið að endurreisa hið gamla. Um það vitna til dæmis áform ríkisstjórnarinnar um að greiða fyrir áframhaldandi og auknum umsvifum fjárglæframannsins Björgólfs Thors Björgólfssonar í íslensku viðskiptalífi. Til dæmis, sagði ég. Einnig fyrirætlanir um að Ólafur Ólafsson haldi 90% hlut í Samskipum, maður sem sætir sakarannsókn sem höfuðpaur í einu stærsta svindli hrunsins. Slegin er skjaldborg um hamfarakapítalista sem skildu íslenskt samfélag eftir í sárum um leið og forysta ríkisstjórnarinnar þykist ekki bera ábyrgð á neinu af þessu og ekkert geta gert.

Of snemmt er að dæma um verk rannsóknarnefndar Alþingis, en borðleggjandi að opinberar vitnaleiðslur þurfa að fylgja í kjölfar skýrslu nefndarinnar. Þjóðin verður að fá að heyra bæði fyrrverandi og núverandi stjórnmálamenn og embættismenn, og ef til vill fleiri, svara gagnrýnum spurningum kunnáttufólks í sambandi við orsakir hrunsins. Það er, svör þeirra sem ekki verða hreinlega ákærðir og eiga fyrir höndum opinber réttarhöld. Flokkarnir á Alþingi eða ríkisstjórnin munu ekki standa fyrir slíkum vitanleiðslum nema neydd til þess af almenningi.

Því er enn ósvarað hvort gerðar verði breytingar í íslenskri stjórnsýslu þannig að hún verði ekki áfram gróðrarstía spillingar og vanhæfni. Miðað við það sem á undan er gengið, þá eru breytingar meir undir almenningi komnar en stjórnvöldum. Í raun veltur allt á því hvort almenningur fylgir kröfum sínum eftir með aðgerðum eða gefst upp og lætur samfélagið hrægömmum eftir.

Búsáhaldabyltingin felur í sér sögulegt tækifæri sem má ekki glutra niður. Mikilvægasta úrlausnarefnið er að finna út hvernig halda á byltingunni áfram. Hér þarf að mynda breiðan borgaralegan vettvang, sem hefði það hlutverk að skýra meginkröfur byltingarinnar og fylgja þeim eftir. Framboðshugmyndir á að útiloka frá byrjun. Austurvöllur er áhrifameiri stofnun fyrir grasrótarsamtök en Alþingi.

Hverjir ættu að hafa forystu um að stofna slíkan vettvang? Ég hef orðað það svo, að Ísland væri þjakað af fámenni, persónulegri nálægð, þrælsótta og spillingu. Að öðrum kosti hefði þegar myndast hér borgaralegur vettvangur með dugandi háskólasamfélag, róttækt fólk úr hreyfingu launafólks, listamenn og námsmenn í fylkingarbrjósti. Ef til vill er þetta rangt mat. Allt hefur sinn tíma.

Háskóli Íslands hefur af einhverjum ástæðum notið mikils trausts almennings. Ef til vill má almenningur vænta einhvers þaðan.

Facebook

1 Response to “Búsáhaldabyltingin verður að halda áfram”  1. 1 VANRÆKSLA ráðherra púkkar undir mafíuríki « Undir hlöðuvegg Bakvísun við febrúar 18, 2010 kl. 10:33

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: